Reykjavík MMA var með fimm keppendur á Caged Steel.

Reykjavík MMA var með fimm keppendur á Caged Steel bardagakvöldinu sem fór fram í Doncaster síðastliðin laugardag (2.Desember). 19 bardagar voru á dagskrá en Caged Steel er bardagasamband sem setur upp bardagakvöld fjórum sinnum á ári.

Fyrstur á svið af íslensku strákunum var Helgi Idder, en hann mætti Jakob Wright í áhugamanna bardaga. Helgi byrjaði vel og var með yfirhöndina í fyrstu lotu. Í annarri lotu fékk Helgi þungt högg á nefið sem virtist trufla hann mikið. Helgi náði Wright í gólfið með glæsilegri fellu, en þegar hann reyndi að koma sér í betri stöðu setti Wright upp triangle og sigraði bardagann þegar 10 sekúndur voru eftir af lotunni.

Haraldur Arnarson barðist sinn fyrsta atvinnumannabardaga og mætti Paul Buckley.
Fyrsta lota var frekar jöfn en í annarri lotu var Haraldur kýldur niður og fékk andstæðinginn ofan á sig. Þar náði Buckley þungum höggum á hann. Haraldur jafnaði sig illa eftir aðra lotu og kom þreyttur inn í þá síðustu sem andstæðingur hans nýtti sér og kláraði Harald með höggum í þriðju lotu.

Jhonas Salinas mætti Sam Brown í titilbardaga í áhugamennsku og sigraði með uppgjafartaki í lok fyrstu lotu.

„Þetta kvöld var alveg magnað, ég hef aldrei upplifað neitt eins og þetta. Ég var einbeittur og spenntur en líka smá stressaður fyrir bardaganum. Ég sá andstæðinginn minn ekkert fyrr en inni í búrinu og það truflaði mig smá. Það var ekkert face-off en ég reyndi bara að vera rólegur,“ segir Jhoan Salinas um bardagann. „Ég var með sigurtilfinningu allan tímann, vissi samt alveg að þetta yrði ekkert auðvelt. Ég bjóst við þungum bardaga og var alveg tilbúinn í það, en klára þetta svo í fyrstu lotu. Það var alveg sturlað og svo stóð ég upp og sá alla íslendingana öskra og fagna. Þetta var alveg sturlað.“

Aron Kevinsson mætti Max Barnett í titilbardaga í áhugamennsku eins og Jhoan Salinas. Eftir erfitt tap í fyrra kom Aron sterkur til leiks, enda búinn að setja inn mikla vinnu fyrir bardagann. Hann var við stjórn allan tímann, bæði standandi og í glímunni en bardaganum lauk með dómaraákvörðun, sem dæmdu Aroni sigurinn.

„Mér leið mjög vel í bardaganum, sem var ólíkt öðrum bardögum því ég hef alltaf verið svo stressaður. Aðdragandinn að bardaganum var líka bara svo skemmtilegur, ferðin til Doncaster með hópnum, ég náði einhvernveginn að njóta miklu meira en ég hef gert. Ég var meira með hópnum og naut þess að borða með öllum, spjalla og hafa gaman, í stað þess að vera fastur með hausinn í því sem ég var að fara að gera. Ég held að ástæðan fyrir því að ég var svona rólegur hafi verið góður undirbúningur fyrir þennan bardaga, ég er virkilega ánægður með undirbúninginn og kláraði hvern dag ánægður og með góða samvisku,“ segir Aron. „Bardaginn var ótrúlega skemmtilegur, þó hann hafi verið svolítið rólegri en ég bjóst við. Ég horfði á hann aftur í gær og mér fannst hann miklu hægari en ég upplifði hann. Andstæðingurinn minn reyndi að hræða mig aðeins fyrir bardagann, með einhverjum ógnandi skilaboðum á Instagram en ég reyndi að láta það ekki hafa áhrif á mig. Hann reyndi líka að slá mig út af laginu inni í búrinu, rétt áður en við fórum inn í þriðju lotu, svo það var mjög gott að sigra hann eftir það. Það sem stendur upp úr þessu öllu saman er ekki endilega mín persónulega frammistaða í þessum bardaga, því ég veit að ég get meira, en það var bara að uppskera eftir alla vinnuna sem ég lagði á mig fyrir þennan bardaga. Hlutirnir hafa ekki alltaf verið mér í hag í þessari íþrótt en ég er spenntur að byggja ofan á þessa reynslu og þetta er bara byrjunin.“

Hrafn Þráinsson og Will Bean mættust í titilbardaga í áhugamennsku í annað sinn á árinu. Í fyrri viðureign þeirra voru gerð mistök við tímavörslu í fyrstu lotu en ákveðið var að halda bardaganum áfram og var Hrafn með yfirhöndina síðustu tvær loturnar og sigraði. Bean og lið hans voru ósáttir með niðurstöðuna og vildu fá bardagann dæmdan ógildan. Það var þó of seint vegna þess að Hrafn var kominn með beltið í flugvél á leið til Íslands þegar ákvörðunin er tekin. Því var ákveðið að þeir myndu berjast aftur.

Hrafn byrjaði bardagann vel, náði Bean niður í byrjun bardagans og var með yfirhöndina í fyrstu lotu. Bardaginn var síðan nokkuð jafn þangað til Bean rak fingur í augað á Hrafni og því þurfti að stöðva bardagann og hann dæmdur ógildur. Bean hefur nú gefið út frá sér að hann vilji ekki berjast í þriðja sinn vegna þess að það hljóti að hvíla bölvun yfir bardaganum en Hrafn segist vera opin fyrir öllu.

„ Mér leið vel og var ánægður með frammistöðu mína þangað til ég fékk fingur í augað. Ég hélt í skamma stund að ég hefði blindast,“ segir Hrafn um bardagann. „ Undirbúningurinn gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Ég tví-kinnbeinsbrotnaði í lok september og brákaði svo rifbein í byrjun nóvember. En ég fann leiðir til þess að æfa fram hjá þessu og fyllti upp í holur í leiknum mínum.“

Bjarki Þór Pálsson, eigandi og yfirþjálfari í Reykjavík MMA segir að þetta hafi verið erfitt og tilfinningaþrungið kvöld.

„ Þetta byrjaði ekki nógu vel, við töpuðum fyrstu tveimur bardögunum og maður þarf að gæta þess að það dragi ekki úr liðinu. Það léttir yfirleitt svona aðeins á manni þegar maður byrjar kvöldið á sigri, ekki bara keppendunum heldur stuðningsliðinu líka. Það var erfitt að byrja svona og það var orðið svolítið þungt yfir okkur þegar Jhoan Salinas fer inn í búrið en við reyndum að halda fókus og vera bjartsýnir. Hver bardagi er auðvitað sérstakur en þegar Salli byrjaði bardagann sinn fékk hann högg á sig og lenti í smá vandræðum og ég hugsaði að þetta kvöld væri bara að fara til fjandans. En Salli tók hann svo niður og kláraði í fyrstu lotu og ég vissi ekki hvert við bræðurnir ætluðum, við vorum svo glaðir.“ segir Bjarki.

„ Svo var líka svo gaman að sjá Aron vinna sinn bardaga og fá beltið, hann átti það svo skilið. Hann hefur lagt mikla vinnu í þennan undirbúning. Hann hefur þroskast mikið á þessu ári og ég sé það á æfingum, þvílíkur agi og vinnusemi. Að keppa er dýrmæt reynsla og það er frábært að þessir strákar hafi lokið keppnisárinu með tveimur beltum, þetta eru strákar sem hafa verið hérna frá upphafi. Ég er mjög stoltur af þeim.“

„Ég hafði engar áhyggjur af Krumma, ég vissi að hann myndi sigra þennan bardaga. Hann var í fókus allan tímann og byrjaði á Keflavíkurflugvelli. Þar setti hann upp heyrnartólin og var ekkert mikið með okkur, hann var bara kominn í gírinn. Bardaginn sjálfur gekk vel, fyrsta höggið sem Krummi lenti þá féll Bean í jörðina en náði að koma sér upp aftur. Þeir glímdu og voru svolítið svona fram og aftur en Bean náði síðan einhverju höggi á Krumma þar sem fingurinn fór í augað á honum og þá þurfti að stöðva bardagann.“ segir Bjarki Þór.

Bjarki Þór segist ánægður með kvöldið þótt það hafi verið átakanlegt og að þjálfarar Reykjavík MMA séu ánægðir með keppnisárið 2023. „Við höfum áorkað miklu, margir sigrar en töp líka, þetta fer allt í reynslubankann. Við erum spennt fyrir 2024 því við erum bara rétt að byrja.“

 

 

 

Reykjavík MMA