Millivigtartitill og reynslunni ríkari eftir bardagakvöld í Englandi.

b7ab17af-40e7-4203-8307-8db4634d26aa.jpg

Caged Steel 21 fór fram um helgina og átti Reykjavík MMA 4 fulltrúa í búrinu.

Magnús "Loki" Ingvarsson barðist sinn annan atvinnumanna bardaga, gegn Percy Hess og átti ekki í teljandi vandræðum með Englendinginn. Það tók Magnús ekki nema 65 sekúndur að klára bardagann með armlás úr "mount". Eftir að hafa komist ofaná Hess og látið höggin dynja. Magnús er því 2-0 sem atvinnumaður og verður spennandi að sjá hvað verður næst hjá honum. @magnuslokimma

Þorgrímur Þórarinsson barðist gegn Matty "The Hammer" Hodgson" um millivigtartitil áhugamanna, en Þorgrímur var fyrir veltivigtarmeistari samtakanna og var því að færa sig upp um þyngdarflokk. Bardaginn var heldur einsleitur og fór að mestu leyti fram upp við búrið þar sem Þorgrímur hélt Englendingnum, sem átti fá svör. Hodgson varðist fellutilraunum Þorgríms vel en náði sjaldan að komast frá búrinu, þar sem hann kýs að standa og fleygja þungum höggum. Sigur eftir einróma dómaraúrskurð varð því staðreynd. Þorgrímur flaug heim með tvö belti og bros á vör.
@thorofthor

Gabríel "The Archangel" Benediktsson mætti James Power, sem er feykilega öflugur "striker" í sínum fyrsta áhugamannabardaga. Miklar kýtingar höfðu átt sér stað á samfélagsmiðlum fyrir bardagann og var því mikil stemmning í húsinu þegar drengirnir stigu í búrið. Fyrsta lota fór vel af stað og skiptust þeir á höggum og spörkum framan af. Um miðja lotu potaði Power í augað á Gabríel með þeim afleiðingum að Gabríel missti linsu. Dómarinn var hinsvegar ekki á því að gera hlé á bardaganum og sagði drengjunum að halda áfram. Virkilega vont fyrir Gabríel, en við það að missa linsu brenglast fjarlægðarskynið, sem er sérlega vont þegar menn eru standandi með jafn öflugum "striker" og Power. Lotan endaði í gólfinu eftir að Gabríel hafði gert tilraun til að fella Power, sem tókst að enda ofaná. Í annarri lotu bætti Power í pressuna og lenti góðum spörkum og fléttum, en eftir eina slíka féll Gabríel í gólfið og dómarinn stöðvaði bardagann. Tap var því staðreynd en Gabríel lætur það ekki á sig fá og er ákveðinn í að halda áfram af fullum krafti að bæta sig. Hlökkum til að sjá hann aftur í búrinu.
@gabrielarch_angel

Aron Kevinsson keppti einnig sinn fyrsta áhugamannabardaga gegn Andy Green sem var líka að þreyta frumraun sína. Bardaginn var jafn og sýndu báðir kapparnir flott tilþrif en Green tókst að gera nóg til að vera skrefinu á undan í augum dómaranna. Eftir þrjár lotur var því tap eftir dómaraúrskurð staðreynd. Mikil og góð reynsla fyrir Aron sem sýndi flotta takta og getur gengið sáttur frá borði eftir sína frammistöðu.
@aronkevins

Heilt yfir flott helgi og óskum við strákunum til hamingju með framistöður sínar. Hlökkum til að sjá ykkur aftur á æfingum!

Reykjavík MMA